Hugleiðingar

H U G L E I Ð I N G A R

Guli trefillinn

það var ennþá kalt þó það væri komið vor. þetta var fyrsti dagurinn sem sólin kom og
var allan daginn. fyrsti almennilegi vordagurinn, þeir eru ekkert of algengir hér.
stelpan var enn í þykku ullarkápunni sinni, þeirri sem hún keypti fyrir veturinn sem er
nú liðinn, en nú var henni heitt. hana langaði út og úr kápunni. -hún gerði það. hún
hljóp út í sólina og vindinn sem virðist aldrei hætta þarna í breiðholtinu. þegar leið á
kvöldið varð kaldara aftur, það er óumflýjanlegt. stelpan fór aftur í ullarkápuna og
ætlaði sér niður í bæ, að sjónum sem einkenndi sumarið áður. þegar hún var á
leiðinni út ákvað hún að það yrði sniðugt að taka trefil, það er kalt hjá sjónum. hún
gramsaði og fann engan sem hana langaði að vera með. eftir dágóða stund fann hún
snjáðan gulan trefil aftast í faraskápnum. guli trefillinn. hún hafði ekki séð hann lengi
og ekki verið með hann utan um sig enn lengur. þetta voru örlög, henni fannst það
a.m.k. nú yrði ekki aftur snúið. vorið var á leiðinni og hún var með gula trefilinn og kitl
í maganum. hún vafði honum utan hálsinn sinn brosti enn breiðar en áður og hljóp í
strætó í fallegu vorbirtunni.

Jana Björg Þorvaldsdóttir


Bréf til ronju/hvað er klukkan í helsinki?

Hvað er klukkan í helsinki? hjá mér er hún þrjú
og það ert aðeins þú,
sem getur bjargað mér.
ertu sofandi?
ég get það ekki
þó heilann ég hrekki, það er alveg ómögulegt
hvernig líður þér?
ég hugsa mikið um það, ég hreyfist varla úr stað, ég sakna þín mikið.
getum við talað?
ég er eitthvað ráðvillt, þú gætir veðrin stillt, án þín er ég týnd.
ertu oft upptekin? ég er það líka,
lífið þitt litríka,
ég skil það afar vel.
á ég að segja þér leyndarmál? ekki það sem þú hélst,
gott að á það þú félst
að vera hér hjá mér.
þú komst til mín í nótt. allt varð eins og áður, tími okkar er dáður svo hvarfstu aftur
burt.
hvað er klukkan í helsinki? hjá mér er hún þrjú
og það ert aðeins þú,
sem ég elska allra mest.

Jana Björg Þorvaldsdóttir


Ástarbréf

Elsku þú,
Hér sit ég á staðnum þar sem eitt sinn ég sat og skrifaði til þín, þá var allt nýbyrjað.
Innan skamms hellast minningarnar yfir mig og tilfinningarnar með.
Óttablandin spenna og gleði,
eftirvænting og von.
Aldrei mig dreymdi að ég gæti orðið svo lánsöm að kynnast þér, hvað þá fengið að
elska þig.
Með þér vil ég ekki koma upp til að anda.
Ég vil sökkva dýpra og dýpra.
Lengra niður
ofan í rúmið
og í hvor aðra.
Ég óska þess heitar en nokkuð annað að þú hættir aldrei að elska mig, leyfir mér að
kynnast þér betur og að þú sökkvir með mér dýpra og dýpra,
langt fram í tímann.

Með ástarkveðju,
Ég

Jana Björg Þorvaldsdóttir

Einn af þessum dögum

“Í dag er bara einn af þessum dögum” segi ég við sjálfa mig um leið og ég panta mér
risastóran kaffibolla (þann fjórða í dag) og sest niður. “Einn af þessum erfiðu dögum
sem koma inn á milli þó svo að maður sé hamingjusamur”. Planið var að reyna að
læra en ég er eitthvað utan við mig. Ég er að hlusta á tónlist sem aftengir mig við
raunveruleikann og gerir allt draumkenndara. Það eru ekki margir á kaffihúsinu sem
er bara fínt, ég kann vel við það svona. Það er rólegri stemning og ég fæ frið til þess
að hugsa. Það er þó kannski ekkert sniðugt að hugsa of mikið. Það koma nokkrir
eldri krakkar úr skólanum og setjast niður rétt hjá mér. Ég kannast við þau og þau
brosa til mín. Hægt og rólega átta ég mig á hópnum og byrja að pakka saman dótinu
mínu. Ég veit alveg hver er á leiðinni og ég vil ekki einu sinni reyna að takast á við
það, það er betra að flýja bara. Einmitt þegar ég held að ég sé sloppin gengur hún
inn. Hugurinn minn fer strax á milljón, hann reynir að halda heilanum í skefjum og
víkja burt vondum hugsunum. Það virkar ekki. Af öllum þeim tilfinningum sem ég get
upplifað finnst mér þessi vera ein af þeim allra verstu. Konan dregur úr sjálfsáliti
mínu með því einu að vera til, með því að vera hún sjálf. Hún er allt sem ég vil vera:
Klár, falleg, vinsæl og góð, hún er óhrædd og hefur mun meiri reynslu af lífinu. Ég er
bara lítil í mér og veit í raun ekki neitt. Ég hræðist návist hennar og forðast hana eins
og heitan eldinn. Mér finnst ekki gaman að líða svona en þetta gengur allt upp, þetta
eru staðreyndir: Hún er betri en ég. Ég verð aldrei jöfn henni. Ég hendi í flýti öllu
dótinu mínu í skítuga, græna bakpokann minn, dríf mig í snjáða jakkann hans pabba,
hækka tónlistina í botn og hleyp út á meðan ég geri mitt besta til að forðast augnaráð
hennar. Ég er byrjuð að anda hraðar. Sennilega blanda af stressi og kaffidrykkju. Ég
skildi samt bollann minn eftir, ég drakk næstum því ekkert, ég var að flýta mér svo
mikið út. Ég reyni að róa mig niður og labba í áttina heim. “Þetta er bara einn af
þessum dögum”.


Jana Björg Þorvaldsdóttir

Share by: